Francisco Garcia, Darri Freyr og Brynjar Þór nýir þjálfarar hjá KR

Körfuknattleiksdeild KR kynnti í dag þrjá nýja þjálfara til sögunnar.

Fyrst ber að nefna nýjan þjálfara meistarflokks kvenna, Francisco Garcia.
Hann hefur þjálfað í efstu deild kvenna á Spáni, var aðstoðarþjálfari U18
landsliðs kvenna á Spáni, landsliðsþjálfari U14 kvenna á Spáni,
landsliðsþjálfari kvenna á Indlandi þar sem hann m.a. náði besta árangri
liðsins í Asíu keppninni. Einnig hefur hann þjálfað í efstu deildum í
Danmörku og Finnlandi. Garcia var yfirþjálfari yngri flokka í Borgarnesi á
þessu tímabili auk þess að vera með leikmenn meistaraflokks kvenna á
séræfingum,. Það er mikill fengur fyrir KR að fá Garcia til starfa en hann
mun einnig þjálfa stúlknaflokk.

Darri Freyr Atlason er nýr þjálfari meistaraflokks karla. Darri er KR-ingum
að góðu kunnur en hann lék í gegnum alla yngri flokka félagsins og alveg upp
í meistaraflokk. Darri var ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna fyrir
tímabilið 2015-2016 en þá spilaði KR-liðið í næst efstu deild. Darri var
valinn þjálfari ársins það ár.  Tímabilið eftir tók Darri til starfa á
Hlíðarenda þar sem hann þjálfaði meistaraflokk kvenna með mjög góðum
árangri. Við bjóðum Darra hjartanlega velkominn aftur til KR og hlökkum til
samstarfins.

Brynjar Þór Björnsson er nýr yfirþjálfari yngri flokka. Brynjar þarf vart að
kynna en hann hefur unnið fjölda titla í yngri flokkum og meistaraflokki KR.
Í vetur þjálfaði Brynjar minnibolta 9 ára en Brynjar hefur haldið fjöldan
allan af körfuboltaskólum og námskeiðum síðastliðin ár við góðan orðstýr.
Brynjar hefur nú þegar hafið störf í samstarfi við mjög öflugt barna og
unglingaráð.  Eins og áður þá verður lagður mikill metnaður í yngri flokka
starfið og er stefna deildarinnar að fjölga iðkendum eins og undanfarin ár.

Körfuknattleiksdeildin vill nota tækifæri og bjóða Fran, Darra og Brilla
velkomna til starfa!

Hlökkum til að sjá sem flesta í DHL-höllinni næsta haust!
Áfram KR!