Lykilleikmenn semja við meistaraflokk karla

Körfuknattleiksdeild KR hefur gengið frá samningum við nokkra lykilleikmenn í meistaraflokki karla. Þetta eru þeir Helgi Már Magnússon, Jakob Örn Sigurðarson og Veigar Áki Hlynsson sem allir semja til 1 árs, og þeir Eyjólfur Ásberg Halldórsson og Þorvaldur Orri Árnason sem semja til 2ja ára.

Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR:
„Það er mikið gleðiefni að þessir leikmenn leiki undir merkjum KR. Helgi og Jakob koma með gríðarlega reynslu og þekkingu inn í liðið og ungu leikmennirnir eru hungraðir eftir mínútum og það verður gaman að fylgjast með þeim og liðinu í vetur. Einnig er frábært að allt eru þetta uppaldir leikmenn með mikið KR-hjarta og þekkja vel hvað ætlast er til af þeim. Það verður gríðarlega gaman fyrir KR-inga að mæta á leikina í vetur og horfa á uppalda leikmenn berjast fyrir klúbbinn!“

Eyjólfur Ásberg Halldórsson, 22 ára, semur við KR til 2ja ára. Eyjólfur lék með KR upp í gegnum yngri flokkana en skipti yfir í ÍR og síðar Skallagrím áður en hann kom aftur heim í KR á síðasta tímabili. Eyjólfur glímdi við erfið meiðsl en kom við sögu í 9 leikjum með KR eftir áramót. Heill heislu er Eyjólfur virkilega öflugur leikmaður sem mun nýtast KR-liðinu vel.

Helgi Már Magnússon, sem varð 38 ára á dögunum, gerir 1 árs samning við KR. Helgi er sjöfaldur Íslandsmeistari með KR (2000,2009,2014,2015,2016,2018,2019) og á hátt í 100 landsleiki með íslenska landsliðinu, spilaði m.a. á Eurobasket árið 2015. Helgi lék sem atvinnumaður erlendis m.a. í Sviss og Svíþjóð. Á síðasta tímabili kom Helgi við sögu í 21 leik, skoraði 8,2 stig og reif niður 4 fráköst að meðaltali í leik.

Jakob Örn Sigurðarson, 38 ára, gerir 1 árs samning við KR. Jakob hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari með KR (2000,2009) en spilaði lengi sem atvinnumaður erlendis, 10 ár í Svíþjóð (með Sundsvall og Borås) en áður í Þýskalandi, á Spáni og Ungverjalandi. Jakob á um 90 landsleiki með íslenska landsliðinu. Jakob glímdi við meiðsl á síðasta tímabili en kom við sögu í 19 leikjum. Hann skoraði 12,6 stig og gaf 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir KR að þeir félagar Helgi og Jakob ætli að taka slaginn og taka þátt í þeim kynslóðaskiptum sem eiga sér stað.

Veigar Áki Hlynsson, 19 ára, gerir 1 árs samning við KR. Veigar er uppalinn í KR en gekk til liðs við Keflavík fyrir síðasta tímabil og lék 18 deildarleiki með þeim. Veigar snéri aftur í Vesturbæinn í sumar og þar er gríðarlega mikið efni á ferð.

Þorvaldur Orri Árnason, 18 ára, gerir 2ja ára samning við KR. Þorri kom við sögu í 13 leikjum á síðasta tímabili og sýndi að þar er gríðarlegt efni á ferð sem spennandi verður að fylgjast með í vetur.

Til viðbótar við þennan hóp eru þeir Brynjar Þór Björnsson, Matthías Sigurðarson og Kristófer Acox samningsbundir. Fleiri frétta er að vænta á næstunni.