Mike Denzel nýr þjálfari meistaraflokks kvenna í viðtali

Mike Denzel tók við sem þjálfari meistaraflokks kvenna í upphafi október er hann var ráðinn í stað Fran Garcia. Frá því að Mike kom til landsins þá hafa engir leikir verið spilaðir og lítið verið um eiginlegar æfingar. Það má segja að hann hafi tekið við liðinu við ansi óvenjulegar aðstæður. Við ákváðum að kynnast Mike aðeins betur en tenging hans við KR fer aftur til ársins 1975. Ásamt því að þjálfa meistaraflokk kvenna í vetur þá mun Mike koma að þjálfun yngri flokka félagsins.

Velkominn til Íslands Mike! Einhverjir KR-ingar kannast nú við þig, leikmenn yngri flokka og þjálfarar hafa mögulega hitt þig áður, en segðu okkur hver Michael Denzel er og hver tenging þín við KR var áður en þú komst hingað í október?

“Ég er fæddur í Chicago, fór í Yale háskólann og síðar tók ég MBA-gráðu í Northwestern (Kellogg) viðskiptaháskólanum. Ég á tvö yndisleg börn, bæði eru að feta ´Zoom´-brautina í sínu háskólanámi þessa dagana í Bandaríkjunum. Ég var giftur í 25 ár, nýlega fráskilinn. Eftir að hafa þjálfað 6 daga vikunnar allan ársins hring síðustu rúm 10 ár, þá var það kannski óhjákvæmilegt,“ segir Mike og glottir.

“Ég hef notið þeirra forréttinda að hafa eytt öllum mínum ferli í kringum íþróttina sem ég elska, nefnilega körfubolta. Þessi litli appelsínuguli skoppandi bolti hefur veitt mér tækifæri til að búa í Þýskalandi og Hollandi er ég starfaði hjá Nike, Sviss, Frakklandi og Hong Kong er ég starfaði hjá NBA, nú síðast Singapúr og núna Ísland.”

“Tenging mín við Ísland byrjaði í rauninni árið 1975 þegar að fulltrúi frá KR, hann Kolbeinn Pálsson, flaug til Chicago til að finna leikmann í körfuboltabúðum sem hann faðir menn stóð fyrir. Sonur Kolbeins, hann Páll Kolbeinsson, kom svo til okkar sumarið eftir og varði sumrinu með okkur fjölskyldunni. Árið 1982 kom ég í fyrsta sinn til Íslands og má segja að við höfum verið virkilega góðir vinir allar götur síðan.”

Og hér ertu mættur til Íslands og kominn í KR, hvernig kom þetta til?

“Frá árinu 2007 hef ég átt og rekið Fastbreak í Singapúr, þetta er körfuboltaprógramm. Í maí 2019 var mér og einum þjálfara minna boðið hingað til landsins til að halda ´3×3´ körfuboltabúðir fyrir yngri leikmenn. Við gerðum greinlega ágætis hluti þá því mér var boðið að koma aftur hingað í ár.”

 


Mike Denzel (efstu röð t.h.) hélt „Fastbreak“ körfuboltabúðir hér á landi árið 2019


Eftir að þú komst til landsins í október sl., þá hefur verið hlé á deildinni, það hafa varla verið neinar æfingar, allavega ekki með snertingu, það hlýtur að vera mikil áskorun að vera þjálfari þessa dagana?

“Já, þetta stoppa og byrja aftur ástand síðan ég kom hefur verið mikil áskorun. En til að vera alveg hreinskilinn, þá er þetta miklu miklu erfiðara fyrir leikmennina. Áður en síðastu takmarkanir skullu á þá vorum við svo heppin að ná 2ja vikna æfingatímabili, reyndar án snertingar, þar var áherslan á þol og æfingar þar sem hægt var að virða fjarlægðarmörk: 1 leikmaður, 1 bolti, 1 karfa. Í augnablikinu er Gunna (Guðrún Arna Sigurðardóttir, aðstoðarþjálfari mfl. kvenna) að leiða liðið í gegnum æfingaprógram með áherslu á þol, blöndu af æfingum með eigin líkamsþyngd og hlaupum.”

Ef við lítum á hópinn okkar í dag, meistaraflokk kvenna, og við vitum að þetta erfið spurning miðað við núverandi aðstæður, en hver eru markmið tímabilsins?

“Við erum með mjög samrýmdann og metnaðarfullan hóp sem getur hreinlega ekki beðið eftir að komast aftur inná völlinn þegar það er leyft. En við erum líka með frekar ungt lið. Forgangurinn hjá mér er tvíþættur, annars vegar að vinna að því að komast í úrslitakeppnina og hins vegar að byggja upp sjálfstraust og hæfileika yngri leikmanna, en þeir muna gegna mikilvægu hlutverki varðandi framtíð félagsins.”

Þú nefndir áðan að þú hafir unnið fyrir NBA, bæði í Evrópu og Asíu, segðu okkur aðeins nánar frá því. Það hlýtur að vera draumur allra sem koma nálægt körfubolta að vinna hjá NBA?

“Já, að vinna hjá NBA var svo sannarlega draumastarfið mitt, þetta var frábær reynsla. Ég hóf störf hjá þeim árið 1993 og var ég einn af fyrstu starfsmönnum þeirra sem vann á alþjóðamarkaði. Ég tók þátt í frumkvöðlastarfi sem í dag þykir sjálfsagt mál, að NBA leikir séu spilaðir utan Bandaríkjanna.”

“Ég á tvær uppáhalds minningar tengdar starfi mínu hjá NBA. Þegar við fengum Chicago Bulls og Michael Jordan til Parísar árið 1997, því eru gerð góð skil í ‘Last Dance’ á Netflix, og svo þegur við fengum Yao Ming og Houston Rockets til Asíu árið 2004 en þá voru spilaðir fyrstu NBA leikirnir í Kína.”

“Svo á ég líka nokkrar góðar minningar frá þessum tíma sem venjulegur aðdáandi. Ég myndi nefna alla meistaratitla Chicago Bulls og svo árið 2000 í Oakland þegar ég sat nokkrum sætaröðum fyrir aftan körfuna þar sem Vince Carter setti á svið svakalegustu sýningu allra tíma í troðslukeppninni.”

 


Mike starfaði um árabil hjá NBA, bæði í Evrópu og Asíu.

Aftur hingað heim. Okkur skilst að þú sért tengdur þróun og uppbyggingu yngri flokka starfsins hjá okkur í KR, segðu okkur aðeins frá því.

“Já, ég er virkilega spenntur að vera kominn aftur til að vinna með ungum iðkendum og yngri flokka þjálfurunum. Markmið mitt er að deila reynslu minni og þekkingu, sem og að innleiða heilstæða nálgun á því hvernig félagið elur upp yngri leikmenn og þá um leið skaffa þjálfarateyminu tól til að sinna starfi sínu.”

Í augnablikinu eru engar æfingar leyfðar, þetta þýðir að yngri flokkarnir mega ekki æfa útí KR og fá leiðsögn frá þeirra þjálfurum (innsk. viðtalið var tekið vikuna 9-15. nóvember). Þú með þína reynslu úr þjálfun, hvaða ráð getur þú gefið okkar iðkendum í þessu ástandi?

“Stutt og laggott, verið jákvæð, verið aktív og verið örugg. Eyðið minni tíma í tölvunni, við sjónvarpið eða í símanum. Farið út, æfið ykkur og andið að ykkur ferska loftinu.”

Ef við horfum aðeins fram á veginn, hvernig sérðu fyrir þér hlutina þróast varðandi æfingar og leiki á komandi vikum?

“Covid-19 faraldurinn er ekki einskorðaður við okkur KR-inga, eða íslenskan körfuknattleik. Ég er engu að síður bjartsýnn á að við munum bráðlega fá að fara aftur inná körfuboltavöllinn til að æfa, við búum í umhverfi hér á landi sem er öruggara en víða annars staðar í heiminum. Þolinmæði núna mun skila okkur miklu til lengri tíma.”

Svona að lokum, þá verðum við að spyrja klassískrar spurningar. Þetta er spurning sem að flestir Íslendingar spyrja erlenda gesti sína að, hvernig líkar þér svo við Ísland?

“Ég er ekki viss um að þið hafið pláss á vefnum ykkar yfir alla þá hluti sem ég elska við Ísland! En ég verð að nefna fólkið, sem hefur ávallt verið ótrúlega vinalegt og tekið vel á móti mér. Frá árinu 1982 ég hef komið allavega 15 sinnum til Íslands. Ég hef að sjálfsögðu heimsótt alla helstu ferðamannastaðina. En þegar ég tek gesti með mér þá reyni ég að forðast margmenni t.d. á Gullna hringnum. Ég elska útivist og þá sérstaklega á hálendinu, ég reyni að fara á ófjölfarnar slóðir.”

“Ég gæti nefnt suðurströndina og Kerlingafjöll, og svo sumarið 2018 gekk ég Laugaveginn í fjóra daga. Ég verð að játa að ég sakna gömlu daganna þegar að Bláa Lónið var bara lítil laug með einföldum búningsklefa og sturtu. En næst á listanum mínum eru Vestfirðir!”

Við þökkum Mike Denzel kærlega fyrir spjallið og bjóðum hann enn og aftur hjartanlega velkominn til starfa í KR.