Perla í spjalli fyrir leikinn gegn Snæfelli: „Hef bullandi trú á okkur“

KR-stúlkur halda í Hólminn á morgun, miðvikudag, og leika gegn Snæfellingum. Þetta er fyrsti leikur liðsins frá því í Október eftir að Dominosdeildirnar voru settar á ís. Við tókum púlsinn á Perlu Jóhannsdóttur, fyrirliða KR-stúlkna, fyrir leikinn gegn Snæfelli.

Nú hafið þið fengið að æfa í rúman mánuð en það eru ca 3 mánuðir síðan að þið spiluðuð síðast mótsleik. Hvernig er staðan á ykkur fyrir leikinn gegn Snæfelli á morgun?
„Ég myndi segja að staðan á okkur sé bara nokkuð góð. Auðvitað tók þetta hlé verulega á mann og það var erfitt að halda sér i góðu keppnisformi með því að fara út að hlaupa í kuldanum og taka æfingar heima hjá sér. En við höfum tekið vel á því á æfingum síðan við fengum að fara aftur inni í salinn og þetta kemur allt saman hægt og rólega. Ég er bara vongóð að við séum í góðu standi miðað við aðstæður og munum spila vel saman á miðvikudaginn.“

Það urðu þjálfaraskipti hjá ykkur um það leyti sem að mótið var sett á ís í október, hvernig líst þér Mike Denzel það sem af er?
„Já mikið rétt, mér finnst Mike vera frábær þjálfari og akkúrat karakterinn sem við þurftum á að halda í þjálfara þetta tímabil. Hann er mjög jákvæður og trúir á alla leikmenn liðsins og er með mikla þekkingu í körfubolta þannig maður treystir honum fullkomlega. Ekki má gleyma henni Gunnu okkar líka. Frábært að fá reyndan fyrrum leikmann sem hefur gengið í gegnum þetta allt saman áður og getur leiðbeint okkur og hjálpað. Það var bara blessun að fá þau tvö til okkar.“

Leikurinn gegn Snæfelli er gríðarlega mikilvægur, þessum liðum er báðum spáð í neðri hluta deildarinnar, hvernig lítur þú á möguleika okkar gegn þeim?
„Eins og ég sagði áðan þá er ég bara mjög vongóð um að við séum í góðu standi og munum spila vel saman. Við fengum mánuð til að undirbúa okkur fyrir keppni og mér fannst við nýta þann tíma nokkuð vel þó að það hafi alltaf verið spursmál um hvenær keppnin myndi byrja á ný. Þetta er mikilvægur leikur og einnig fyrsti leikur eftir langt hlé en ég er samt bara spennt fyrir honum og hef bullandi trú á okkur.“

Nú munið þið spila 5 leiki á næstu tveimur vikum, svo kemur landsleikjahlé í hálfan mánuð. Hvernig líst þér á framhaldið?
„Já einmitt 5 leikir á tveim vikum er alveg slatti, en maður er búinn að bíða með tilhlökkun svo lengi að fá að stíga á parketið og keppa á ný þannig þetta verður bara veisla. Við hvílum okkur bara í hlénu. En mér líst bara mjög vel á framhaldið, við lentum í þvílíkri enduruppbyggingu á liðinu okkar í haust en við erum komin með frábært þjálfarateymi núna og mér líst vel á liðið okkar, fullt af flottum leikmönnum með KR hjarta og baráttu og við stefnum bara upp á við.“

Leikur Snæfells og KR fer fram miðvikudaginn 13. Janúar klukkan 19:15 í Stykkishólmi. Engir áhorfendur eru leyfðir og leikurinn er ekki sýndur á Stöð 2 Sport. Við bendum stuðningsmönnum á að fylgjast með gangi leiksins í gegnum vef KKÍ.