Zarko Jukic til liðs við KR

Danski leikmaðurinn Zarko Jukic er genginn til liðs við KR. Zarko er 27 ára, tveggja metra framherji sem lék síðast með FOG Næstved í dönsku úrvalsdeildinni. Zarko hefur lengst af leikið í dönsku deildinni en einnig spilað á Spáni, Englandi og í Svíþjóð.

Darri Freyr Atlason, þjálfari mfl. karla:

„Zarko er mikill íþróttamaður sem getur brugðið sér í ólík hlutverk. Hann mun leysa stöður mið- og framherja hjá okkur og gerum við ráð fyrir að hann hjálpi liðinu töluvert í frákastabaráttunni. Á síðastliðnu tímabili var Zarko fimmti frákastahæsti leikmaður dönsku deildarinnar og sá frákastahæsti sem var ekki með amerískt ríkisfang. Zarko er fjölhæfur varnarmaður sem getur nýtt hæð sína og hreyfanleika í að dekka flestar stöður á vellinum. Hann er frábrugðin þeim leikmönnum sem að við höfum hér fyrir og mun vonandi styrkja liðið töluvert í komandi átökum.“

Zarko lék fyrst með Hörsholm 79ers frá 2011-2014. Þaðan lá leiðin til Svíþjóðar þar sem hann lék tvö tímabil í sænsku úrvalsdeildinni, með KFUM Nassjo 2014-2015 og svo Norrkoping Dolphins 2015-2016. Síðan lék Zarko með Ourense í næstefstu deild á Spáni tímabilið 2016-2017, því næst á Englandi í efstu deild með Newcastle Eagles. Tímabilið 2018-2019 lék hann í þriðju efstu deild á Spáni með Albacete og á síðasta tímabili, 2019-2020, eins og áður sagði með FOG Næstved í dönsku úrvalsdeildinni. Þar skoraði Zarko 7,5 stig og reif niður 8,4 fráköst í leik. Zarko á að baki landsleiki með danska landsliðinu.

Við bjóðum Zarko velkominn í KR!

> Nánar um feril Zarko Jukic